Leitað að leka með lituðu vatni

Hveragerðisbær. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Á morgun, fimmtudag, munu Veitur hefja lekaleit í lokuðu kerfi hitaveitu í Hveragerði.

Leitin fer þannig fram að skaðlaust litarefni verður sett í kerfið í varmastöðinni og reynt með sjónskoðun á yfirborði og í fráveitubrunnum að staðsetja leka og rangar tengingar. Beri það ekki árangur verða tekin sýni úr heita vatninu sem greind verða hjá ÍSOR.

Í tilkynningu frá Veitum eru íbúar í Hveragerði beðnir um að hafa augun hjá sér og tilkynna Veitum verði þeir varir við litað vatn á og við heimili sín eða í umhverfinu.

Litarefnið natríum flúoresein er skaðlaust ferliefni og er eitt algengasta ferilefnið sem er notað í grunnvatnsrannsóknum. Efnið brotnar hratt niður í sólarljósi einnig þegar sýrustig er um og undir pH 5.5 en slíkar aðstæður eru algengar í jarðvegi á svæðinu. Efnið er hvorki eitrað né sérlega virkt í vatnslausn og hefur því ekki skaðleg heilsu- eða umhverfisáhrif.

Fyrri greinHríðarveður á Hellisheiði
Næsta grein87 ára keppandi í verðlaunasæti