Grunur leikur á að karl og kona hafi verið á efri hæð hússins sem brann við Kirkjuveg á Selfossi í dag. Þeirra er nú leitað. Mikill eldur var í húsinu þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang.
Útkallið barst kl. 15:53 og þá var ekki mögulegt fyrir reykkafara að fara inn í húsið vegna gríðarlegs hita.
Húsráðandi og gestkomandi voru handtekin á vettvangi vegna rannsóknar á eldsupptökum. Grunur er um að karl og kona hafi verið á efri hæð hússins þegar eldurinn kom upp. Þeirra er nú leitað.
Sérfræðingar tæknideildar lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu hafa verið kallaðir til aðstoðar við rannsókn málsins.
Slökkvistarf stendur enn yfir og verður vettvangurinn lokaður óviðkomandi eftir að því lýkur vegna vettvangsrannsóknar.
Lögreglan getur ekki veitt frekari upplýsingar um málið að sinni.