Leitað að fólki á Kili

Aðgerðum er stýrt í samstarfi við aðra viðbragðsaðila frá aðgerðarstjórnstöðinni á Selfossi. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Á tíunda tímanum í kvöld voru allar björgunarsveitir í Árnessýslu kallaðar út vegna tveggja týndra ferðamanna á Kjalvegi.

Ferðamennirnir eru hjón og höfðu lagt af stað í göngu frá Gíslaskála um miðjan dag í dag ásamt tveimur öðrum. Þau urðu viðskila við hina tvo en þeir skiluðu sér til baka um fimm leytið í Gíslaskála.

Fljótlega fóru þeir að hafa áhyggjur af þeim og náðu síðast sambandi við þau um klukkan átta og höfðu þau ekki hugmynd um hvar þau voru. Ekki hefur náðst samband við þau síðan þá og klukkan hálf tíu lögðu fyrstu hópar af stað á Kjöl til að hefja grófa leit út frá upplýsingum um ferðir þeirra. Á svæðinu er lágskýjað og hiti undir 10 gráðum.

Aðgerðum er stýrt í samstarfi við aðra viðbragðsaðila frá aðgerðarstjórnstöðinni á Selfossi.

UPPFÆRT: Fólkið fannst heilt á húfi eftir miðnætti um 3 km sunnan við Kjalfell.

Fyrri greinÞorbergur hljóp fram og til baka og sigraði
Næsta greinHeildarveltan í júní lægri en undanfarin ár