Leitað að bíl í Þingvallavatni

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Leit stendur yfir í og við vestanvert Þingvallavatn eftir að tilkynnt var um að bíll hefði sést úti á vatninu og hann hefði svo farið niður um ís á vatninu.

Útkallið barst laust eftir klukkan ellefu í morgun og var mikið viðbragð frá Björgunarmiðstöðinni á Selfossi vegna þess. Bátaflokkar frá björgunarsveitum í Árnessýslu hafa verið kallaðir út og leitað er með dróna og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Einnig var kafarasveit sérsveitar ríkislögreglustjóra sett í viðbragðsstöðu.

„Það er ís á vatninu og vakir inn á milli og björgunarsveitir ganga bakkana og leita eftir ummerkjum um að þarna hafi farið bíll í vatnið,” sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.

Þegar sunnlenska.is ræddi við Pétur laust fyrir klukkan eitt hafði leitin ekki borið árangur og tækjabíll Brunavarna var á leið af staðnum en leitin er enn í fullum gangi.

UPPFÆRT KL. 12:58: Viðbragðsaðilar á vettvangi eru búnir að skoða svæðið vel og hefur verið tekin ákvörðun um að hætta leit þar sem engin ummerki sjást á vatninu, samkvæmt tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi. Aðstæður til leitar úr lofti voru góðar og var svæðið skoðað vel úr þyrlu og með drónum.

Fyrri greinTveir Íslandsmeistaratitlar á Selfoss
Næsta greinAtli fékk fyrstu verðlaun í kórlagakeppninni