Leita sleðamanns við Hrafntinnusker

Tveir vélsleðamenn villtust í Hrafntinnuskeri nærri Landmannalaugum í hádeginu í dag. Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út til að leita að öðrum þeirra.

Mennirnir urðu viðskila við félaga sína en annar þeirra komst í skálann í Hrafntinnuskeri og er óhultur samkvæmt upplýsingum frá Flugbjörgunarsveitinni á Hellu.

Leitað er að hinum manninum en hann hefur verið í símasambandi við björgunarmenn og er óhultur. Maðurinn hafði grafið sig í fönn við hlið vélsleðans en var ekki viss um hvar hann væri.

Samkvæmt upplýsingum frá björgunarsveitinni er mögulegt að finna staðsetningu mannsins út frá farsímanum.

Leitarskilyrði á svæðinu eru slæm, rok og skafrenningur.