Leita eftir húsnæði á Hvolsvelli

Fyrirtækið Lífland hefur tekið við rekstri Búaðfanga að Stórólfsvelli við Hvolsvöll og hefur stjórn fyrirtækisins hugmyndir um aukna starfsemi þess.

Horft er til þess að finna hentugt húsnæði á Hvolsvelli undir stærri verslun. Lífland rekur nú verslanir á fjórum stöðum á landinu auk þess að eiga fóðurverksmiðju á Grundartanga og kornmyllu í Reykjavík.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að Lúðvík Bergmann sem hefur átt og rekið Búaðföng hefur ákveðið að hverfa til annara starfa en Berglind B. Gunnarsdóttir og Jón Bertel Jónsson munu starfa áfram hjá fyrirtækinu og sjá um þjónustu við viðskiptavini þess.

Þórir Haraldsson, framkvæmdastjóri Líflands, sagði í samtali við Sunnlenska að fyrirtækið hefði áhuga á að koma sér upp verslunarhúsnæði á Hvolsvelli en húsnæði af þeirri stærðargráðu væri af skornum skammti.

„Við finnum aukinn áhuga bænda og annarra heimamanna að versla í heimabyggð og því höfum við verið að auka starfsemi okkar víða um land,“ segir Þórir.

Lífland selur vörur sínar einnig í gegnum aðrar verslanir, svo sem Jötunn vélar og Baldvin og Þorvald, á Suðurlandi.

Fyrri greinAndri Hrafn í Míluna
Næsta greinSelfoss tapaði í Garðabænum