Leita að hugmyndum almennings

Þingvallanefnd leitar eftir hugmyndum almennings um hvernig þróa megi þjóðgarðinn á Þingvöllum. Verkefnið var kynnt í dag.

Árlega tekur garðurinn á móti þúsundum gesta sem vilja upplifa sérstöðu Þingvalla án þess að ganga á tækifæri komandi kynslóða til að njóta staðarins.

Fram kemur í tilkynningu að allir geti tekið þátt í hugmyndaleitinni sem standi til 22. ágúst 2011 og verða veittar allt að fimm 200 þúsund króna viðurkenningar fyrir hugmyndir sem dómnefnd telur áhugaverðastar.

Opnað hefur verið sérstakt svæði á vef þjóðgarðsins þar sem er að finna nánari lýsingu á hugmyndaleitinni auk upplýsinga um fyrirkomulag og leikreglur.

Í dómnefnd sitja: Ragna Árnadóttir formaður, Andri Snær Magnason rithöfundur, Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu, Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður og formaður íslensku heimsminjanefndarinnar.

Fyrri greinSluppu með lítil meiðsli
Næsta greinVettvangshjálparlið í uppsveitunum