Leitað fram á nótt

Leitin að týnda Þjóðverjanum á Eyjafjallajökli mun standa fram á nótt. Um 150 manns taka þátt í leitinni.

Sveinn Rúnar Kristjánsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, segir á Vísi að leitarmenn hafi einhver mið úr síma mannsins til þess að reyna að átta sig á því hvar hann sé staddur. Hins vegar séu það mjög óljósar vísbendingar.

Skilyrði á vettvangi eru slæm, þoka, lítið skyggni og slæm færð.

Maðurinn var á göngu með tveimur félögum sínum er hann varð viðskila við þá um fimmleytið í gær. Félagar hans tveir fundu leiðina niður jökulinn og sváfu í Baldvinsskála í nótt. Þeir leituðu báðir félaga síns í morgun en eftir nokkra stund fór annar þeirra niður til byggða og óskaði eftir hjálp. Hinn varð eftir í Baldvinsskála og beið mannsins.

Fyrri grein150 manns leita á Eyjafjallajökli
Næsta greinBlávatn í lögnum í Hveragerði