Leitað að vörslusviptingarmönnum

Atbeina lögreglu var óskað vegna tveggja manna sem bönkuðu upp á í húsi á Selfossi í síðustu viku og kynntu sig sem starfsmenn vörslusviptingafyrirtækis.

Erindi þeirra væri að sækja bifreið manns sem var í skuld með bifreiðina.

Umráðamaður bifreiðarinnar krafði mennina um gilda pappíra sem heimilaði þeim vörslusviptinguna. Þeir framvísuðu pappírum sem maðurinn taldi ekki gilda og neitaði að afhenda bifreiðina.

Mennirnir létu manninn vita af því að skuldin myndi hækka talsvert ef hann afhenti ekki bifreiðina. Þegar þeim var ljóst að bifreiðin yrði ekki afhent hurfu þeir á braut.

Sá sem vörslusviptingin beindist að er í greiðsluskjóli hjá Umboðsmanni skuldara.

Maðurinn kom til lögreglu daginn eftir að atvikið átti sér stað. Ekki er vitað hverjir voru þarna á ferð og hvort þeir voru á vegum lánafyrirtækis eða ekki en lögreglan reynir nú að upplýsa það.

Fyrri greinSluppu án meiðsla úr bílveltu
Næsta greinBjarki setti Íslandsmet í 60 m hlaupi