Leitað að manni í Grímsnesinu

Tilkynnt var um týndan mann í Grímsnesi í nótt. Hann fannst við Laugabakka undir morgun, heill á húfi.

Maðurinn hafði farið frá bíl á Biskupstungnabraut rétt austan við Minni-Borg. Maðurinn var ölvaður og hafði gengið eitthvert út í myrkrið og ekki komið aftur.

Björgunarsveitir voru kallaðar til og kom lið frá sjö sveitum, alls um fimmtíu manns, sem leituðu frá hálfþrjú í nótt til um klukkan sex í morgun. Þá fannst maðurinn rétt hjá Laugabakka, þar sem einn björgunarsveitarbíllinn var á leiðinni á Selfoss.

Var maðurinn þá á leið á Selfoss og ölvíman runnin af honum. Maðurinn vissi hvar hann var og var á réttri leið. Hann var hann nokkuð kaldur en algerlega heill á húfi þó.

Fyrri greinGuðmunda og Ragnar íþróttafólk ársins
Næsta greinFærðu Heiðari Má peningagjöf