Leitað að manni á Svínafellsjökli

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar leita nú manns sem villtur er á Svínafellsjökli. Hann lagði af stað í gönguferð í morgun og hugðist ganga upp að Hrútfellstindum.

Um klukkan sex í kvöld hringdi hann í systur sína í Póllandi og sagðist vera villtur. Hún hafði í framhaldinu samband við viðbragðsaðila hér á landi.

Fyrstu björgunarsveitir voru kallaðar út um klukkan 18:30 og nú er búið að boða vant fjallafólk frá öllum sveitum frá Höfn til höfuðborgarsvæðisins enda jökullinn aðeins fær slíku fólki. Nokkrir starfsmenn frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum sem staddir voru í Skaftafelli munu einnig aðstoða við leitina.

Gert er ráð fyrir að leita þurfi allt svæðið frá rótum jökulsins og upp að tindunum. Veður á svæðinu er afleitt, mikil þoka og rigning á köflum.

Ekki hefur náðst símasamband við manninn en hann hefur náð að senda tvö SMS skilaboð til bakvaktar björgunarsveita. Í þeim lýsir hann nánar staðsetningu sinni, segist vera orðinn kaldur og að síminn sé að verða straumlaus.

Verið er að flytja búnað á svæðið sem miðað getur út staðsetningu símans og mun þyrla LHG líklegast fljúga honum frá Reykjavík og austur.

Fyrri greinRennblautt og markalaust á Selfossi
Næsta greinMaðurinn fannst heill á húfi