Leitað að heitu vatni á Selfossi

Selfossveitur standa nú að tilraunaborunum eftir heitu vatni á bökkum Ölfusár. Fjölgun íbúa í sveitarfélaginu kallar á aukin aðföng og þar er heita vatnið ekki undanskilið.

Selfossveitur sjá um að útvega íbúum sveitarfélagsins heitt vatn en vinnsla á heitu vatni fyrir Árborg hefur verið af tveimur svæðum það er Laugardælur/Þorleifskot þar sem vinnsla hófst 1948 og í landi Stóra Ármóts í Flóahreppi þar sem vinnsla hefur verið síðan 2000. Afkastageta þessara svæða er nú talinn fullnýtt og því þurfa Selfossveitur finna ný orkuöflunarsvæði.

Eitt slíkt svæði er hugsanlegt norðan við Ölfusá en í lok síðustu viku og upphafi þessarar hafa staðið yfir rannsóknarboranir til að kanna umfang jarðhitans á svæðinu og hvort von sé á heitu vatni í vinnanlegu magni.

Meðfylgjandi mynd er af rannsóknarborun við Miðtún á Selfossi þar verið er að skábora í von um að finna vatnsgefandi sprungur. Niðurstöður úr þessum rannsóknum munu síðan liggja fyrir á næstu vikum en Íslenskar Orkurannsóknir(ISOR) eru ráðgjafar Selfossveitna varðandi staðsetningu á borholum og úrvinnslu.

Fyrri greinKvennalandsliðið heimsækir Hveragerði og Selfoss
Næsta greinHvergerðingar og Rangæingar með flest stig