Leitað að vitnum vegna líkamsárásar

Aðfaranótt laugardagsins 16. júlí síðastliðinn um klukkan 3:15 var konu hrint á svölunum á Draugabarnum á Stokkseyri með þeim afleiðingum að hún handarbrotnaði.

Margt fólk var á staðnum þar á meðal tveir karlmenn sem voru að rífast og stimpast. Konan bað mennina með vinsemd að vera ekki með ófrið.

Annar karlmannanna brást við athugasemdinni með því að ráðast að konunni og hrinti henni. Við það féll hún aftur fyrir sig og handleggsbrotnaði.

Líkamsárás þessi er til rannsóknar hjá lögreglunni á Selfossi. Leitað er vitna að þessu atviki og hver sá sem veitt getur upplýsingar er beðinn að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.