Leitað að vitnum vegna líkamsárásar

Ráðist var á mann um tvöleytið í nótt fyrir utan 800Bar á Selfossi. Hann var fluttur til aðhlynningar á slysadeild í Reykjavík.

Að sögn lögreglu sá fórnarlambið tvo eða þrjá menn sem ætluðu að ráðast á ungan mann og ákvað að ganga á milli. Fór það ekki betur en svo að þeir gengu í skrokk á honum.

Maðurinn kom sér sjálfur á slysadeild á Selfossi og þar var ákveðið að flytja hann til Reykjavíkur.

Lögreglan ræddi við fólk á vettvangi í nótt en þar var enginn sem kannaðist við atburðinn.

Lögreglan óskar eftir vitnum og geta þeir sem hafa einhverjar upplýsingar um árásina haft samband við lögregluna á Selfossi í síma 480-1010.