Leitað að stangveiðimanni

Lögreglan á Selfossi var kölluð út í dag eftir að 16 ára stangveiðimanns var saknað við Stóru-Laxá í Hrunamannahreppi.

Pilturinn hugðist ganga í veiðihús í Laxárdal en skilaði sér ekki þangað. Lögreglu barst útkallið rétt fyrir klukkan 16.

Pilturinn fannst eftir 40 mínútna leit heill á húfi en björgunarsveit og þyrla Landhelgisgæslunnar voru þá í startholunum að aðstoða við leitina.