Leitað að ökumanni ljósrar bifreiðar

Um klukkan 19 laugardaginn 11. janúar síðastliðinn varð árekstur við gatnamót Þorlákshafnarvegar og Eyrarbakkavegar.

Ökumaður grárrar Opel Corsa bifreiðar ók suður Þorlákshafnarveg og ætlaði að beygja inn á Eyrarbakkaveg þegar annarri bifreið var ekið aftan á Opelinn.

Ökumaður bifreiðarinnar sem ók aftan á Opel bifreiðina stöðvaði bifreið sína í 1 til 2 sekúndur en hélt síðan áfram ferð sinni í átt að Þorlákshöfn án þess að ræða við ökumann hinnar bifreiðarinnar.

Ekki náðist skráningarnúmer bifreiðarinnar sem lenti aftan á en talið að það hafi verið ljós Subaru og nokkur hávaði frá pústi hennar.

Lögreglan á Selfossi biður ökumann þessarar bifreiðar sem og þá sem veitt geta upplýsingar um málið að hafa samband í síma 480 1010.

Fyrri greinHvatagreiðslur í Árborg hækka
Næsta greinVilja fleiri ferðir skólabíla