Leitað að manni sem velti fjórhjóli

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa verið kallaðar út vegna manns sem velti yfir sig fjórhjóli ofan við Mörtungu, rétt austan við Kirkjubæjarklaustur.

Maðurinn, sem var einn á ferð í smalamennsku, náði að hringja eftir aðstoð en var ekki viss um nákvæma staðsetningu sína. Ekki næst í hann í síma þessa stundina en símasamband er slitrótt á svæðinu.

Þar sem leita getur þurft að honum voru fjórar björgunarsveitir á svæðinu kallaðar út og eru nú á leið á staðinn.