Leitað að fyrirtæki ársins

Leitin að fyrirtæki ársins að mati félagsmanna Bárunnar, stéttafélags og Verslunarmannafélags Suðurlands er hafin.

Tilgangurinn með valinu er sá að með tímanum verði titillinn að einskonar gæðastimpli á fyrirtæki og með því að öðlast þessa útnefningu skipi þau sér í hóp þeirra fyrirtækja sem eftirsóttast er að vinna hjá.

Kannaðir eru nokkrir lykilþættir sem varða starfsfólk til dæmis hvernig fólki líður í vinnunni, hvernig stjórnun er að mati starfsfólks, hvernig starfsandi er innan fyrirtækisins og hvort starfsmenn eru sáttir við möguleika sína til að komast áfram í starfi hjá fyrirtækinu til dæmis með aukinni menntun.

Einnig er lagt til grundvallar samskipti stéttafélaganna við viðkomandi fyrirtæki. Þar leggja starfsmenn félaganna sitt mat á hvernig samskiptum er háttað og hvernig gengið hafi að leysa úr ágreiningi, hafi verið um slíkt að ræða.

Könnun er send út til allra félagsmanna þessara tveggja stéttafélaga sem eru um 3.400 talsins, á svæðinu frá Selvogi að Lómagnúp. Skilafrestur er til 15. nóvember og eru félagsmenn hvattir til að taka þátt í þessari könnun því þetta er ein leið af mörgum til að vekja stjórnendur fyrirtækja til umhugsunar og kveikja metnað til að huga vel að starfsfólki sínu.

Fyrri greinLítil nýliðun í landbúnaði áhyggjuefni
Næsta greinSvalar flugkúnstir Selfosshrafnanna