Leitað að ferðamanni í Eldgjá

Nú stendur yfir leit að asískri konu sem saknað er í Eldgjá á Fjallabaksleið nyrðri. Konan kom með hópi ferðamanna í rútu á staðinn.

Stoppað var í Eldgjá í klukkustund en þegar halda átti til baka skilaði hún sér ekki og hefur ekkert til hennar spurst síðan.

Bílstjóri rútunnar beið hennar í um klukkustund áður en ferðinni var haldið áfram. Lét hann lögreglu vita og var hafin eftirgrennslan skömmu síðar.

Í dag hefur Björgunarsveitin Stjarnan úr Skaftártungu farið um svæðið á bílum og fjórhjólum og kannað alla slóða í kring og upp með ánni. Nú hafa allar sveitir í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu verið kallaðar til leitar.

Ekki er talið loku fyrir það skotið að konan hafi fengið far með öðrum af svæðinu.

Ef einhver hefur verið á ferðinni á þessu svæði í dag og tekið konuna upp í bílinn hjá sér er sá hinn sami beðinn um að hafa samband við lögregluna á Hvolsvelli í síma 488-4110.

Konan er 20-30 ára, dökkklædd með litla ljósa hliðartösku. Hún er um 160 cm á hæð og talar góða ensku.

Þeir sem hafa einhverjar upplýsingar um ferðir konunnar eru vinsamlegst beðnir að hafa samband við lögregluna á Hvolsvelli.

UPPFÆRT KL. 23:30: Leit að konunni hefur ekki borið árangur og hefur henni verið frestað til morguns. Lögreglan hefur ekki fengið neinar vísbendingar um ferðir konunnar.

Fyrri greinVarað við hlaupvatni og eiturgufum
Næsta greinHSK í fjórða sæti