Leitað að bláum dráttarbíl – og vitnum

Umferðarslys varð um kl. 13:30 í dag á Suðurlandsvegi við afleggjarann að Hellisheiðarvirkjun. Þar var blárri dráttarbifreið með vagni ekið aftan á fólksbifreið.

Þrennt var í fólksbifreiðinni og voru þau öll flutt á sjúkrahús í Reykjavík en eru ekki talin alvarlega slösuð. Nokkuð tjón hefur orðið á dráttarbifreiðinni og fólksbifreiðin er illa farin.

Ökumaður dráttarbifreiðarinnar fór af vettvangi áður en lögregla kom á staðinn án þess að fyrir lægju upplýsingar um hann eða ökutækið.

Hann er beðinn um að hafa samband við lögregluna á Suðurlandi í síma 444 2000. Þá biður lögreglan þá sem mögulega urðu vitni að slysinu að hafa samband sömuleiðis.