Leit lokið í dag – engar vísbendingar fundist

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa lokið leitarstörfum í nágrenni Laugavegarins í dag en leitað hefur verið af miklum þunga af bandarískum ferðamanni sem spurðist siðast til þann 10. september í Landmannalaugum.

Vel á annað hundrað manns tóku þátt í leitinni í dag og var notast við fisflugvélar, leitarhunda auk þess sem tugir göngumanna leituðu svæðið. Björgunarsveitarmenn eru nú á leið til síns heima og má reikna með að kvöldið fari í það.

Engar öruggar vísbendingar hafa fundist um ferðir mannsins aðrar en að hann gekk af stað þann 10. september. Ekki eru forsendur fyrir frekari leit á þessari stundu.

Veðurspá fyrir svæðið næstu daga er óhagstæð, hún og aðstæður á svæðinu valda því að ekki eru miklar líkur á árangri auk þess sem leitað hefur verið nokkuð vel á svæðinu.

Fyrri greinHaukur Ingi og Richard sömdu við Selfoss
Næsta greinLeggjast gegn frekari tilraunaborunum