Leit heldur áfram í birtingu

Björgunarsveitarmenn á Ölfusá í nótt. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Leit að manninum sem lenti í Ölfusá í gærkvöldi hefur engan árangur borið. Leitað var fram eftir nóttu og áin vöktuð með sjónpóstum.

Neyðarlínan fékk tilkynningu um að bíll hefði farið í ána um klukkan 22 í gærkvöldi. För eftir bílinn fundust við Básinn ofan við Selfosskirkju og seinna um kvöldið fannst brak úr bílnum á ánni. Lögreglan hefur staðfest að einn maður var í bílnum.

Viðbragðsaðilar tóku stöðufund klukkan 7 í morgun og hefst leit aftur í birtingu að því gefnu að veður leyfi. Slæmt veður er á leitarsvæðinu og töluvert vatn í Ölfusá.

Tæplega 100 björgunarsveitarmenn leituðu í gærkvöldi og nótt en auk þeirra áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu og frá sjúkraflutningum HSU ásamt lögreglumönnum.

Aðstandendur mannsins sem leitað er að hafa fengið aðstoð frá áfallateymi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Fyrri grein„Sjötíu manns að leita og fleiri á leiðinni“
Næsta greinÞjóðsagnamyndir sviðsettar í ævintýrarými á Listasafninu