Leit hætt við Álftavatn

Björgunarsveitarmenn á útkíkki á Sogsbrú. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Björgunarsveitir hafa leitað við Álftavatn og Sogið frá því á ellefta tímanum í kvöld eftir að mannlaus bátur fannst á Álftavatni. Óttast var að þar hafi bátsverjar fallið frá borði. Leit var hætt eftir miðnætti en ekkert fannst og engin verksummerki eru um að fólk hafi verið í bátnum. 

Búið er að hafa uppi á eiganda bátsins og ekki er talið að einhver á hans vegum hafi verið á bátnum en möguleiki var á að aðrir hafi nýtt bátinn. 

Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að líklegt sé að báturinn hafi losnað, eða verið losaður og ýtt frá landi. „Sé það raunin væri það sorglegur grikkur,“ segir í tilkynningunni.

Um 50 björgunarsveitarmenn voru við leit á svæðinu, mikil þoka er í Grímsnesinu en aðstæður til leitar voru góðar. 

Björgunarsveitarmenn ganga bakka Sogsins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Björgunarsveitarfólk frá Eyrarbakka setur bát á flot á Álftavatni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinSpjaldaveisla og glæsimörk í nágrannaslag
Næsta greinSurf- og strandarhátíð í Þorlákshöfn á laugardaginn