Leit dagsins bar ekki árangur

Björgunarsveitir hafa í dag leitað Ríkharðs Péturssonar á Selfossi. Leit hófst kl. 9 í morgun og var henni frestað rétt fyrir kl. 16 í dag.

Alls tóku um níutíu manns þátt í leitinni m.a. sérhæfðir leitarhópar á landi og í straumvötnum og notast var við leitarhunda, báta og dróna.

Leitað var innanbæjar á Selfossi og á og meðfram Ölfusá. Leitin bar ekki árangur en henni verður haldið áfram á morgun. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi verður umfang leitarinnar minna á morgun.

Lögreglan vill ítreka að þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Ríkharðs eftir kl. 18:00, þriðjudaginn 23. janúar sl., eru beðnir að hafa samband við lögregluna á Suðurlandi í síma 4442000, 112 eða á einkaskilaboðum á Facebook.

Fyrri greinAðflutt­ir íbú­ar með hærri laun
Næsta greinSunnudagspjall með Guðrúnu og Brynhildi