Leikskólinn stækkar og börnunum fjölgar

Ljósmynd/Aðsend

Nýju húsnæði hefur verið komið fyrir á lóð leikskólans Bergheima í Þorlákshöfn og hefur það fengið nafnið Jötunheimar. Byggingin mun hýsa nýjan kjarna fyrir leikskólann og hefur plássum þar verið úthlutað.

Fyrirhugað er að hefja starfsemi þar næstkomandi mánudaginn en næstu daga munu um 22 börn hefja nám í leikskólanum og fjölgar börnum á leikskólanum þá í 135 börn. Þetta kallar á endurskipulagningu innan leikskólans sem nú þegar hefur verið unnin af starfsfólki og kynnt fyrir foreldrum.

Nýr leikskóli opnar á næsta ári
„Það er mikilvægt fyrir sveitarfélagið að geta tekið vel á móti fólki sem flytur til okkar og hlúa vel að barnafjölskyldum sem hér búa. Í Ölfusi eru góðir skólar og fyrirmyndar íþróttastarf sem myndar umgjörð utan um fjölskylduna. Leikskólinn Bergheimar hefur verið að taka inn í skólann börn frá 18 mánaða aldri ef laus pláss eru til staðar en það er ljóst að starfsemin þar er að verða komin að þolmörkum. Það er því gleðiefni að ákveðið er að haustið 2025 er fyrirhugað að opna nýjan leikskóla í Vesturbyggð,“ segir Jóhanna M. Hjartardóttir, sviðsstjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Ölfuss.

Í byrjun árs var auglýst eftir dagforeldrum til starfa í Ölfusi og hafa nokkrir áhugasamir haft samband. Um áramótin samþykkti bæjarstjórn Ölfuss að hækka heimgreiðslur til foreldra barna sem eru orðin 12 mánaða í 100 þúsund krónur. Sama upphæð er veitt til niðurgreiðslu hjá dagforeldrum.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri grein„Ég hélt að þetta væri eitthvað gabb“
Næsta greinMyndlistarsýningin „Maður og efni“