Leikskólinn Leikholt flytur að Blesastöðum

Leikskólinn Leikholt í Brautarholti. Ljósmynd/skeidgnup.is

Starfsemi leikskólans Leikholts í Brautarholti á Skeiðum verður flutt að Blesastöðum, þar sem áður var dvalarheimili aldraðra.

Eins og greint var frá í síðustu viku greindist mygla í húsnæði leikskólans fyrir jól og eru viðgerðir á húsinu þegar hafnar.

Að sögn Kristófers A. Tómassonar, sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps, voru nokkrir húsnæðiskostir skoðaðir og metnir en síðastliðinn föstudag var tekin ákvörðun um að flytja starfsemi leikskólans að Blesastöðum, í húsnæði sem áður hýsti dvalarheimili fyrir aldraða og hefur undanfarin ár hýst ferðaþjónustu.

„Núna um helgina hefur verið unnið af miklum krafti að flutningi á búnaði úr leikskólanum að Blesastöðum. Þar komu margar vinnufúsar hendur sjálfboðaliða að málum. Á Blesastöðum mun leikskólinn opna á allra næstu dögum,“ segir Kristófer og bætir við að viðgerð og þrif í Brautarholti muni taka talsverðan tíma.

„Það má ætla að daginn verði tekið að lengja mjög þegar flutt verður að nýju í húsnæðið. Kostnaður við verkefnið hefur ekki verið fyllilega greindur, en ljóst er að hann verður mikill og ekki líkur á að tryggingar eða sjóðir komi þar að,“ segir Kristófer ennfremur. Hann væntir þess að allir hlutaðeigandi í samfélaginu sýni þessum aðstæðum þolinmæði og skilning.

Fyrri greinSkráning hafin í prófkjör Pírata
Næsta greinSautján manns í einangrun á Suðurlandi