Leikskólinn fer ekki aftur í fyrra húsnæði

Í ljósi þess að raki og mygla greindist í húsnæði leikskólans Álfaborgar í Reykholti í Biskupstungum í sumar skipaði sveitarstjórn Bláskógabyggðar vinnuhóp til að fara yfir húsnæðisþörf skólans.

Vinnuhópurinn fékk það hlutverk að skoða húsnæðisþörf leikskólans til framtíðar og skilaði hann niðurstöðum sínum til sveitarstjórnar sem tók málið fyrir á fundi í október.

Sveitarstjórn samþykkti samhljóða að fá ráðgjafa til að vinna frummat á uppbyggingu leikskólahúsnæðis fyrir Álfaborg. Einnig var samþykkt að starfsemi skólans fari ekki aftur inní fyrra húsnæði leikskólans.

Eins og fram hefur komið flutti starfsemi Álfaborgar inn í húsnæði grunnskólans þegar rakinn og myglan komu í ljós.

Helgi Kjartansson, oddviti, greinir frá því í nýjasta tölublaði Bláskógafrétta að starfsemi leikskólans verði því inni í grunnskólanum þangað til uppbyggingu nýs leikskólahúsnæðis lýkur.