Leikskólinn Árbær rýmdur vegna reyks

Leikskólinn Árbær á Selfossi var rýmdur á ellefta tímanum í morgun eftir að eldur kviknaði í þvottavél miðsvæðis í húsinu. Rýmingin gekk vel og engum varð meint af.

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu á Selfossi fékk boð um mikinn reyk frá þvottavél miðsvæðis í leikskólahúsinu kl. 10:25 í morgun. Fjölmennt lið viðbragðsaðila dreif að og þurfti að reykræsta húsið en töluverður reykur var innandyra.

Kristín Eiríksdóttir, leikskólastjóri, sagði í samtali við sunnlenska.is að rýming skólans hafi gengið mjög vel. „Þetta er í fyrsta sinn sem reynir á viðbragðsáætlunina okkar. Við höfum brunaæfingar reglulega en þetta er auðvitað allt öðruvísi þegar reynir á af alvöru. En þetta gekk alltsaman fljótt og vel hjá okkur,“ sagði Kristín en eitthundrað börn eru á leikskólanum Árbæ.

Reykræsting stendur yfir þessa stundina. Eina tjónið mun vera sjálf þvottavélin sem verður send til frekari rannsóknar til að finna út hvað kom eldinum af stað.

UPPFÆRT KL. 11:14

Fyrri greinUngir íþróttamenn heiðraðir
Næsta greinHelgin með besta móti hjá Selfosslöggunni