Leikskólinn á Laugalandi heimsótti Skeiðvelli

Í vikunni þáðu tveir elstu árgangar Leikskólans á Laugalandi heimboð frá Katrínu Sigurðardóttur og fjölskyldu á Skeiðvöllum, en þar starfrækja þau myndarlegt hrossabú, verslun og kaffihús svo fátt eitt sé nefnt.

Tóku börnin og starfsmenn sem fylgdu þeim, daginn snemma og en Kata tók á móti hópnum ásamt Davíð Jónssyni eiginmanni sínum og starfsfólki. Auk fræðslu um það hvaðan íslenski hesturinn er upprunninn og hvernig hann barst hingað til lands þá fór hún yfir gangtegundirnar fimm sem íslenski hesturinn býr yfir. Kata og börnin fetuðu, brokkuðu, töltu og skeiðuðu á hesthúsganginum, en tóku stökkið í reiðhöllinni. Hápunkturinn var þegar teymt var undir börnunum í reiðhöllinni.

Eftir þessa fræðslu var öllum boðið uppá heitt kakó, kanilbollur og piparkökur í notalegu kaffihúsinu. Enduðu svo börnin á því að mála á skeifur sem voru í boði hússins, til að eiga til minningar um góða ferð og fræðslu um íslenska hestinn. Til að kóróna móttökurnar færðu Kata og Dabbi börnunum að gjöf bókina Heimur hestsins, fræðsla fyrir forvitna krakka.

Fyrri greinLangþráð brunavarnaáætlun undirrituð
Næsta greinIngó, Helgi Valur og Júlí Heiðar í Eurovision