Leikskólarnir á Selfossi fullsetnir

Leikskólarnir Jötunheimar, Hulduheimar og Álfheimar á Selfossi eru fullsetnir en möguleiki er á að koma 1-3 börnum fyrir í Árbæ eftir því á hvaða aldri þau börn eru.

Töluvert mörg pláss eru laus í Æskukoti og Brimveri á Stokkseyri og Eyrarbakka. Foreldrum barna á Selfossi sem eru á biðlista eftir plássi hafa boðist þau pláss en enginn hefur þegið það enn sem komið er.

Þetta kom fram á fundi Fræðslunefndar Árborgar í síðustu viku.

Öll börn fædd á árunum 2006-2009 sem hafa lögheimili í Árborg hafa fengið leikskólavist. Á biðlista í þessum árgöngum eru þrjátíu börn sem öll eru með lögheimili utan Árborgar.

Níu börn fædd 2010 eru komin inn á leikskóla í sveitarfélaginu og 74 eru á biðlista. Fyrir sumarfrí var búið að úthluta fleiri plássum til barna fæddra 2010 sem ekki voru þegin. Úthlutun á plássum til barna í þessum árgangi var sett á bið þar sem þó nokkur fjöldi eldri barna, sem óskuðu eftir leikskólaplássum, fluttist í sveitarfélagsið seinnipart sumars.

Fyrri greinSautján gullverðlaun til HSK/Selfoss
Næsta greinKonan ekki alvarlega slösuð