Leikskólar Árborgar lokaðir á milli jóla og nýárs

Leikskólinn Árbær á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fræðslunefnd Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að leikskólar Árborgar verði lokaðir dagana 28.-30. desember næstkomandi og starfsfólki leikskólanna gefið jólafrí þessa daga.

Þetta er gert í ljósi þess mikla álags sem verið hefur á leikskólastarfsfólk um langt skeið vegna heimsfaraldurs Covid-19.

„Það hefur mætt á mörgum í samfélaginu að bregðast við þeim síbreytilegu aðstæðum sem skapast hafa vegna Covid-19 og tilheyrandi ákvarðana um samkomutakmarkanir og sóttkvíar. […] Sú staða hefur meira að segja komið upp að helmingur starfsfólks hafi óvænt verið bundinn heima í sóttkví og hraðar hendur þurft til að greiða úr málum. Það er tímabært að verðlauna leikskólastarfsfólk og gefa því andrými nú um jólin til að endurnýja krafta sína í faðmi fjölskyldunnar,“ segir meðal annars í bókun fræðslunefndar sem samþykkti tillöguna samhljóða.
Fyrri greinSigríður og Gestur hljóta lista- og menningarverðlaun Ölfuss 2020
Næsta greinFiskvængirnir slá í gegn