Leikskólar á Selfossi að fyllast

Átta pláss eru laus á leikskólunum á Selfossi í haust ef börn á biðlista skila sér í skólana. Útlit er fyrir að fjölga þurfi starfsfólki við skólana í haust.

Ásthildur Bjarnadóttir, sérkennslufulltrúi, lagði fram upplýsingar um leikskólapláss í Árborg á síðasta fundi fræðslunefndar sveitarfélagsins.

Í sumarbyrjun losna 94 pláss í leikskólunum vegna barna sem hætta og flytjast yfir í grunnskóla og er útlit fyrir að þau pláss fyllist nær öll.

Samkvæmt tölum Ásthildar eru átján pláss laus í haust en tíu þeirra eru frátekin fyrir börn sem ekki eru komin með lögheimili á Selfoss en flytjast þangað í sumar og eru á biðlista eftir plássi.

Jötunheimar er eini leikskólinn sem er fullsetinn, sjö pláss eru laus á Árbæ og einnig á Hulduheimum og 4-5 pláss fyrir yngstu börnin á Álfheimum.

Á Eyrarbakka verða laus pláss fyrir 8 lítil börn í haust og á Stokkseyri eru 14 pláss laus eins og var í fyrravetur.

Fram kom í máli Ásthildar að starfsfólk leikskólanna miðast við þann fjölda barna sem er nú þegar inni, þannig að það gæti þurft að bæta við starfsfólki í haust.