Leikskólakennaranemar styrktir til náms

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar hefur samþykkt reglur um námsstyrki til nema í Hveragerði sem leggja stund á háskólanám í leikskólakennarafræðum og annaðhvort vinna í leikskólum Hveragerðisbæjar eða hafa áform um að gera.

Reglurnar eru fjölþættar og fara eftir því hvort að viðkomandi er starfsmaður leikskóla bæjarins eða ekki. Starfsmenn leikskóla sem stunda nám í leikskólakennarafræðum fá svo dæmi sé tekið eingreiðslur frá bænum tvisvar á ári 75.000,- í hvort sinn auk auk þess sem starfsmenn fá laun á meðan nám er stundað og í æfingakennslunni.

Íbúar í Hveragerði sem stunda nám í leikskólakennarafræðum fá einnig styrk, en þeim stendur til boða að fá sem nemur 40.000,- tvisvar á ári á meðan á námi stendur. Er eingreiðslum þessum ætlað að mæta að einhverju leyti þeim kostnaði sem verður til vegna námsins, svo sem akstri og bókakaupum.

Í bókun sem meirihluti D-listans lagði fram segir að reglur um styrki til nema í leikskólakennarafræðum hafi verið í gildi undanfarin ár án þess að hafa vakið sérstaka athygli. „Með nýjum reglum þar sem styrkurinn er formgerður með ákveðnari og veglegri hætti vonast meirihluti bæjarstjórnar til að fjölga muni fagmenntuðum starfsmönnum leikskóla til hagsbóta bæði fyrir þá, sem og fyrir börn bæjarins.“

Fyrri greinSogsbrú lokuð fram að hádegi
Næsta greinRagnar Brynjólfs: Minnisvarðar og möguleikar