Leikskólagjöld felld niður í verkfalli

Leikskólinn Álfheimar á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Samkvæmt upplýsingum sunnlenska.is munu sunnlensk sveitarfélög fella niður leikskólagjöld vegna skerðingar á vistun barna í verkfalli BSRB og aðildarfélaga þeirra.

Starfsemi leikskólanna í Árborg hefur verið skert á meðan á verkfallinu stendur þannig að ekki er hægt að bjóða börnum upp á fulla vistun. Leikskólarnir eru til að mynda lokaðir í hádeginu og ekki boðið upp á mat. Árborg mun fella niður gjöld fyrir þá daga sem börnin geta ekki mætt og sömuleiðis fyrir lokunartímann í hádeginu, auk þess sem matarkostnaður fellur niður. Foreldrar munu fá endurgreiðslu vegna skerts vistunartíma í maímánuði um næstu mánaðarmót.

Sama er uppi á teningnum í Grímsnes- og Grafningshreppi þar sem sveitarfélagið mun ekki innheimta leikskólagjöld fyrir þann tíma sem börnin njóta ekki þjónustu vegna verkfallsaðgerðanna.

Í Hveragerði verða leikskólagjöld endurgreidd fyrir þær stundir sem börnin geta ekki mætt í skólanna og verður endurgreiðslan framkvæmd þegar samningar hafa náðst. Í bókun bæjarráðs segir að ráðið hafi þungar áhyggur af stöðunni og vonast eftir því að aðilar nái saman sem allra fyrst.

Auk ofangreindra sveitarfélaga eru leikskólastarfsmenn í Rangárþingi eystra, Mýrdalshreppi og Bláskógabyggð í verkfalli.

Fyrri greinRagnar Örn snýr aftur
Næsta greinHlaupahátíð í Hveragerði um helgina