Leikskólagjöld felld niður fyrir elsta árganginn

Leikskólabörn á Flúðum. Mynd úr safni. Ljósmynd/Undraland

Vistunargjöld í leikskólanum Undralandi á Flúðum hafa verið felld niður fyrir börn í elsta árgangi, sem eiga lögheimili í Hrunamannahreppi. Breytingin tók gildi núna um áramótin.

Foreldrar taka áfram þátt í fæðiskostnaði í samræmi við samþykkta gjaldskrá.

Þann 1. september næstkomandi verða vistunargjöld felld niður á þau börn sem fara í grunnskóla að ári en áætlanir H-listans, í meirihluta hreppsnefndar, fela í sér afnám leikskólagjalda í áföngum þannig að hann verði gjaldfrjáls að fullu haustið 2024.

Systkinaafslætti hefur einnig verið breytt og er hann nú 50% en ekki er lengur frítt fyrir þriðja barn. Þá greiða börn með lögheimili utan sveitarfélagsins fullt vistunargjald í leikskólann.

Fyrri greinEkki gerð krafa um farbann
Næsta greinGabríel Sindri farinn frá Hamri