Leikskóladeildum á Selfossi fjölgar

Leikskólinn Álfheimar. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Nýjar leikskóladeildir við Álfheima á Selfossi verða líklega opnaðar í október og búið er að bjóða 26 börnum pláss á nýju deildunum.

Nú eru rétt rúmlega 500 nemendur í leikskólum Árborgar en fimm leikskólar eru í sveitarfélaginu, fjórir á Selfossi og einn með starfsstöðvar bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri. Innritun í leikskólana fór fram í apríl og maí og var þá nánast öllum plássum úthlutað.

Í frétt á heimasíðu Árborgar kemur fram að með viðbótinni á Álfheimum er búið að bjóða öllum börnum, sem eru með lögheimili í sveitarfélaginu, sem fædd eru í apríl 2018 pláss í leikskóla.

Einnig er fyrirhugað að setja upp eina deild við heilsuleikskólann Árbæ og þá er hafin undirbúningsvinna við byggingu nýs leikskóla sem rísa mun við Engjaland á Selfossi.

Fyrri greinUngmennaráð vill efla sálfræðiþjónustu í grunnskólum
Næsta grein„Náum að koma mjög miklu af fatnaði inn í hringrásarhagkerfið“