Leikskólabörn tóku „síðustu skóflustunguna“

Stærsta framkvæmd næstu ára í Hveragerði er bygging nýs sex deilda leikskóla sem rísa mun neðan Heiðarbrúnar. Útboð húss og lóðar mun fara fram á næstu vikum.

Jarðvegsvinna vegna leikskólabyggingarinnar er hafin og er það fyrirtækið Arnon ehf í eigu Guðmundar Arnars Sigfússonar sem sér um hana.

Ákafi verktaka í að hefja framkvæmdir var svo mikill að jarðvegsframkvæmdir voru komnar vel á veg þegar uppgötvast að það gleymdist að taka fyrstu skóflustunguna. Mörgum þótti það heldur verra því vaninn er að gera það með viðhöfn og bjóða til þess fjölmiðlum og fyrirmönnum. En þess í stað var ákveðið að elstu börn leikskólans Undralands myndu koma og hjálpa Guðmundi Arnari að moka ofan í holuna stóru sem nú hefur birst í móanum og það gerðu þau síðastliðinn föstudag.

Það var fríður hópur barna og starfsmanna sem mætti með skóflur og góðan vilja niður fyrir Heiðarbrún og mokaði í gríð og erg áður en horft var á “gröfubíó” en þá lék Guðmundur Arnar listir sínar á stóru gröfunni fyrir börnin.

Húsið verður um 1.000 m2 og með tilkomu þess mun gefast möguleiki á að börn frá eins árs aldri fái tilboð um leikskólavistun. Jafnframt mun leikskólinn Undraland breytast og væntanlega hýsa frístundaskóla bæjarins og þar með eldri börn.