Leikholti lokað vegna myglu

Leikskólinn Leikholt. Ljósmynd/skeidgnup.is

Mygla hefur greinst í leikskólanum Leikholti í Brautarholti á Skeiðum og þarf að loka honum á meðan viðgerð stendur yfir.

RÚV greinir frá þessu og staðfestir Björgvin Skafti Bjarnason, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, í samtali við fréttastofu RÚV að myglan hafi verið greind rétt fyrir jól og þá þegar hafi verið hafist handa við að laga drenlagnir í kringum húsið.

Myglan er að sögn Skafta meiri og sýnilegri í eldri hluta hússins en í nýja hlutanum hefur þak einnig lekið. Ekki sé talið hættulegt að vera í húsinu en um leið og farið verður að hreyfa við byggingarefni sé viðbúið að ekki sé verandi í húsinu.

Einn af möguleikunum sem er til skoðunar hjá sveitarfélaginu er að taka Hótel Heklu á Brjánsstöðum á leigu undir leikskólann. Annar möguleiki sem er til skoðunar er að flytja leikskólastarfið í félagsheimilið í Árnesi.

Leikholt er eini leikskóli sveitarfélagsins og eru í honum 35 börn.

Frétt RÚV

Fyrri greinStarfsfólk HSU Sunnlendingar ársins 2020
Næsta greinBjarki og Elvar markahæstir í tapleik