Leikfélag Hveragerðis fer í Þjóðleikhúsið

Uppfærsla Leikfélags Hveragerðis á leikritinu Naktir í náttúrunni var valin athyglisverðasta áhugasýning nýliðins leikárs. Valið var tilkynnt á aðalfundi Bandalags íslenskra leikfélaga sem haldinn er á Hótel Hlíð í Ölfusi um helgina.

Þetta er í 24. sinn sem valið fer fram en að þessu sinni sóttu ellefu leikfélög um að koma til greina við valið með tólf sýningar.

Að valinu á áhugasýningu ársins komu að þessu sinni fjórir leikarar úr leikhópi Þjóðleikhússins, þau Atli Rafn Sigurðarson, Edda Arnljótsdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir og Snorri Engilbertsson, ásamt Ara Matthíassyni þjóðleikhússtjóra.

Umsögn dómnefndar um sýningu Leikfélags Hveragerðis er svohljóðandi:

„Naktir í náttúrunni í uppsetningu Leikfélags Hveragerðis er leikgerð leikstjórans, Jóns Gunnars Þórðarsonar, sem byggð er á The Full Monty, verki um atvinnulausa menn sem taka sig saman og fara að æfa strippdans til að hafa í sig og á. Þessi leið, að vinna með þekkt verk og aðlaga það leikhópnum og aðstæðum í heimabyggð, heppnast hér ákaflega vel, og sýningin öðlast aukinn áhrifamátt við það að atvinnumissir persónanna er settur í kunnuglegt samhengi. Verkið krefst ákveðinnar djörfungar af leikhópnum, og hópurinn leggur sig allan fram í metnaðarfullri, kraftmikilli og skemmtilegri sýningu.“

Þjóðleikhúsið óskar Leikfélagi Hveragerðis til hamingju og býður leikfélaginu að koma og sýna sýninguna í Þjóðleikhúsinu í júní.

Fyrri grein4,5 stiga skjálfti skammt frá Árnesi
Næsta greinSelfyssingar fögnuðu golfsumrinu með teikningum af breyttum Svarfhólsvelli