Leigumál Kerhólsskóla að leysast

Grímsnes- og Grafningshreppur greiðir talsvert lægri upphæð fyrir leigu á skóla- og stjórnsýslubygg­ingu á Borg ef samningsdrög sem nú liggja fyrir við Eignarhalds­félagið Fasteign hf. verða sam­þykkt.

Gunnar Þorgeirsson, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps, segir sveitarstjórn vera ánægða með samningsdrögin. Þau gera ráð fyrir því að gamli Glitnir og Háskóli Reykjavíkur gangi út úr Fasteign með eignir sínar og gerður verði samræmdur leigu­samn­ingur við öll sveitarfélögin innan Fasteignar til 25-27 ára á kaupleiguformi. Að honum lokn­um geti sveitarfélögin keypt fast­eignir sínar gegn mjög lágri loka­greiðslu.

Gunnar segir leiguupp­hæð sveitarfélagsins fyrir húsnæði Kerhólsskóla lækka verulega verði þessi samningsdrög samþykkt.

Almenn ánægja virðist ríkja um samningsdrögin hjá öðrum leigutökum hjá Fasteign, en af­staða verður tekin til samningsins á aðalfundi Fasteignar hf. 9. ágúst.

Verði hann samþykktur mun hluthafaeign þeirra sem áfram verða leigutakar félagsins upp­fær­ast í samræmi við leigugreiðslur þeirra. Þetta þýðir að Reykjanes­bær verður með meira en helming atkvæða innan Fasteignar. Gunnar segir vera óásættanlegt að eitt sveit­ar­félag geti fengið ráðandi eignarhlut innan félagsins og vænt­ir þess að atkvæðavægi Reykja­nes­bæjar verði takmarkað.