Leigja Tryggvaskála til átta ára

Í morgun skrifuðu fulltrúar Sveitarfélagsins Árborgar og Selfossveitingar undir samning um leigu á Tryggvaskála. Þar munu Selfossveitingar opna veitingastað í lok mánaðarins.

Þeir Fannar Geir Ólafsson og Tómas Þóroddsson hjá Selfossveitingum, sem einnig reka Kaffi Krús stefna á að opna Tryggvaskála Restaurant laugardaginn 29. júní næstkomandi. Þar verður veitingastaður þar sem áhersla er lögð á mat úr héraðinu, Ölfusárlax, lamb úr Flóanum og grænmeti úr Hrunamannahreppi auk osta og skyrs svo eitthvað sé nefnt.

“Við munum gera sögu Skálans og Ölfusárbrúar hátt undir höfði en auk veitingahússins verður veislusalur og létt kaffihús í Skálanum,” sagði Tómas í samtali við sunnlenska.is. “Undirbúningurinn gengur vel, við erum búnir að kaupa húsgögn og erum að ljúka við að standsetja eldhúsið svo að allt verði tilbúið í lok mánaðarins.”

Leigusamningurinn sem skrifað var undir í morgun er til átta ára. Auk Fannars og Tómasar skrifuðu Eyþór Arnalds og Ásta Stefánsdóttir undir fyrir hönd sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið Árborg leigir Tryggvaskála af eiganda hússins, Sjálfseignarstofnuninni Tryggvaskála, og framleigir til Selfossveitinga. Sjálfseignarstofnunin Tryggvaskáli eignaðist húsið með samningi við sveitarfélagið árið 1998 og hefur unnið að því að gera húsið upp. Framkvæmdum er nú að ljúka, meðal annars með því að húsið verður málað að utan. Þá er nú unnið að frágangi utanhúss, s.s. hellulögn og gróðursetningu og er það samvinnuverkefni sveitarfélagsins og Sjálfseignarstofnunarinnar.

Fyrri greinEkið á stúlku á rafmagnsvespu
Næsta greinSelfyssingar sigruðu í stigakeppninni