Leifur og Már ætla sér alla leið í Gullegginu

Námsefnisbankinn, verkefni Selfyssinganna Leifs Viðarssonar og Más Ingólfs Mássonar er komið í úrslit Gulleggsins, frumkvöðlakeppni sem Klak Innovit stendur nú að í áttunda sinn.

Tíu verkefni eru komin í úrslit Gulleggsins og verður tilkynnt um úrslitin á lokahófi Gulleggsins laugardaginn 7. mars næstkomandi kl 16:00 í Háskóla Íslands. Gulleggið gefur frumkvöðlum tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri og gera úr þeim raunverulegar og markvissar áætlanir sem miða að stofnun fyrirtækja. Samhliða keppninni er þátttakendum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga – frá mótun hugmyndar til áætlanagerðar og þjálfunar í samskiptum við fjárfesta.

Að sögn Leifs er Námsefnisbankinn gagnagrunnur af verkefnum gerðum af kennurum fyrir kennara. Hugmyndin að bankanum kviknaði fyrir um fjórum árum síðan og hefur verið í vinnslu síðan þá með hléum þó.

„Stærsta hindrunin í framþróun skólastarfs er tímaleysi og lítil samvinna kennara. Námsefnisbankinn leysir það vandamál með því að gefa kennurum til baka stóran hluta tímans og auðveldar samvinnu kennara hvar sem er á landinu. Bankinn skiptist í fjóra hluta, gagnagrunninn þar sem verkefnum er safnað saman, skilasíðu þar sem kennarar geta lagt inn verkefni í bankann, heimasvæði skóla þar sem þau verkefni sem skólarnir kjósa að nota birtast nemendum og sérstaka síðu til að útbúa gagnvirkar kannanir og próf,“ segir Leifur í samtali við sunnlenska.is.
„Í dag eru um 4.500 grunnskólakennarar starfandi á landinu og flestir eru þeir að útbúa verkefni hver í sínu horni. Mörgum langar eftlaust að deila sín á milli og miðla með öðrum en sökum tímaskorts getur það reynst erfitt. Við höfum kynnt hugmyndina bæði á netinu og í skólaheimsóknum og viðbrögðin sem við höfum fengið hafa verið virkilega góð. Við teljum að margir kennarar hafa verið að bíða eftir svona framtaki og að Námsefnisbankinn verði vel nýttur,“ bætir Leifur við.
Leifur og Már hafa mikla trú á verkefninu sínu og ætla sér alla leið í Gullegginu. „Við vitum að þörfin fyrir námsefnisbankann er mikil og við hvetjum alla til að taka þátt í kosningunni og kjósa okkar hugmynd í vali fólksins,“ segir Leifur að lokum.

Hér er hægt að taka þátt í kosningunni um Gulleggið 2015

Fyrri greinErna skoraði eina mark Selfoss
Næsta greinÁrborg eignast Hafnarlóðina