Leif leggur skærin á hilluna

Hjónin Björgvin Ragnar Emilsson og Linda Jóhannesdóttir hafa keypt Hársnyrtistofu Østerby á Selfossi af Leif Østerby sem leggur nú skærin á hilluna eftir 50 ára starfsferil.

Björgvin rakari er úr Þorlákshöfn en Linda, sem er hárgreiðslumeistari, er fædd og uppalin á Selfossi. „Við höfum lengst af unnið í Reykjavík en einnig í Danmörku. Við erum búin að búa í Flóanum síðustu tvö ár en erum nú búin að koma okkur fyrir á Stokkseyri,“ sagði Björgvin í samtali við sunnlenska.is.

Hann segir aðdragandann að kaupunum hafa verið frekar stuttann. „Ég hitti nú bara Leif á förnum vegi fyrir mánuði síðan og þá kom þessi hugmynd upp. Þetta gerðist nokkuð hratt en viðtökurnar hafa verið frábærar þessa fyrstu viku sem ég er búinn að vera hérna,“ sagði Björgvin ennfremur.

Hermann Østerby, sonur Leif, sem unnið hefur á stofunni undanfarin ár, mun starfa þar áfram.

Í tilefni af eigendaskiptunum verður 30% afsláttur af klippingu á föstudag og laugardag í þessari viku.