Leiðir styttast með nýjum og endurbættum Reykjavegi

Ljósmynd/Stjórnarráðið

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, opnuðu í dag nýjan og endurbættan Reykjaveg í Bláskógabyggð. Nýr vegur styttir leiðina milli Laugarvatns og Reykholts um 4 km og leysir af hólmi gamlan malarveg og einbreiða brú yfir ána Fullsæl, sem byggð var árið 1962.

„Markmiðið með nýjum vegi er að stytta vegalengdir og efla samgöngur fyrir íbúa og ferðafólk í uppsveitum Árnessýslu, en ekki síður að auka umferðaröryggi með því að leggja veg með bundnu slitlagi sem uppfyllir nútíma hönnunar- og öryggiskröfur. Þá er nýjum vegi ætlað að bæta aðgengi ferðamanna og sumarhúsagesta að vinsælum áningar- og ferðamannastöðum á svæðinu. Ég óska íbúum á svæðinu og landsmönnum öllum til hamingju með nýjan veg,“ sagði Sigurður Ingi við opnunina.

Vegurinn gegnir þýðingarmiklu hlutverki en stysta leiðin milli þéttbýliskjarna er um Reykjaveg, þ.e.a.s. milli Laugarvatns og Reykholts. Einnig styttist leið að fjölförnum sumarhúsabyggðum á svæðinu. Vegurinn er um 8 km langur og liggur á milli Biskupstungnabrautar rétt neðan Reykholts og Laugarvatnsvegar ofan Brúarár.

Fyrri greinFramsókn boðar vaxtarstyrki
Næsta greinDagurinn í dag