Leiðsagnir og ratleikur í snjallsímann

Um liðna helgi gaf Friður og frumkraftar, hagsmunafélag atvinnulífs í Skaftárhreppi, út tvær snjalleiðsagnir og ratleik á íslensku og ensku í gegnum smáforritið Locatify Smartguide.

Forritið er hægt að nálgast gjaldfrjálst fyrir Android, iPhone og iPad í gegnum App Store og Google Play og er skemmtileg viðbót við afþreyingu á svæðinu. Leiðsagnanna er einnig hægt að njóta heima í stofu áður en haldið er af stað. Verkefnið var styrkt af Vinum Vatnajökuls og Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og var unnið í samstarfi við Kötlu jarðvang, Kirkjubæjarstofu og Skaftárelda ehf.

Leiðsögnin Klausturstígur var unnin í samstarfi við Kötlu jarðvang. Klausturstígur er um 20 km löng gönguleið þar sem jarðfræði, landmótun og saga Kirkjubæjarklausturs og nágrennis er rakin með 30 stuttum frásögnum. Katla jarðvangur hefur einnig gefið út ítarlegan gönguleiðabækling sem verður til sölu á svæðinu.

Einnig er leiðsögn í tengslum við Skaftáreldana 1783-1784 og afleiðingar þeirra í Skaftárhreppi sem nær til 26 staða víðsvegar um sveitarfélagið. Mælt er með stuttmyndinni Eldmessu sem sýnd er í Skaftárstofu áður en haldið er af stað.

Ratleikurinn er skemmtileg afþreying fyrir alla fjölskylduna og hefst við Skaftárstofu. Leikurinn sem tekur um 1 klst hefur að geyma upplýsandi fróðleiksmola í tengslum við náttúru, menningu og sögu svæðisins.

Fyrri greinSérsveitin aðstoðaði við leitina
Næsta greinAtvinnumennirnir okkar í heimsókn