Leiðandi fréttamiðill í 20 ár

Starfsmenn og velunnarar Sunnlenska fréttablaðsins fögnuðu 20 ára afmæli blaðsins í hófi á Hótel Selfossi í kvöld. Fyrsta tölublað Sunnlenska kom út þann 20. nóvember árið 1991.

Sunnan 4 ehf hóf útgáfu Sunnlenska í árslok 1991 og komu fjögur tölublöð út fram að áramótum. Fjórmenningarnir sem stóðu að útgáfunni voru blaðamennirnir Bjarni Harðarson og Sigurður Bogi Sævarsson, Gunnar Sigurgeirsson ljósmyndari og Kjartan Jónsson prentari. Viðtökurnar við blaðinu voru nokkuð dræmar og á jólum 1991 voru litlar líkur á að þessari tilraunaútgáfu yrði haldið áfram.

Það er ekki fyrr en í lok janúar 1992 eftir áskoranir utan úr bæ og samstillta bjartsýni fjórmenninganna að útgáfunni er haldið áfram. 30. janúar 1992 kemur út 1. tölublað 2. árgangs og hefur blaðið komið vikulega út síðan.

Sunnlenska hefur vaxið ásmegin ár frá ári og hefur nú verið leiðandi fréttamiðill á Suðurlandi í tvo áratugi og fundið fyrir miklum velvilja lesenda í héraðinu á þeim tíma.

Útgáfa Sunnlenska er vegleg í þessari viku en sérstök áhersla er lögð á afmæli blaðsins þar sem m.a. má lesa ágrip af sögu þess. Einnig eru rifjaðar upp margar skemmtilegar fréttir í gegnum árin. Þá fylgir blaðinu glæsileg jólagjafahandbók.

Fyrri greinBreki fær styrk frá Árborg
Næsta greinMjólkurbúshverfið skipulagt upp á nýtt