Leggur til að Laugalandsskóla verði lokað

Hiti er í umræðu um skólamál í Rangárþingi ytra í kjölfar skýrslu sem tveggja manna vinnuhópur skilaði sveitarstjórn með úttekt og samanburði skólanna á Laugalandi og Hellu, og skólum í öðrum sveitarfélögum. Þar er lagt til að allt skólastarfið verði fært á Hellu.

„Nefndinni var ekki ætlað að koma fram með tillögur úr starfi sínu en uppálagt að tína til valkosti,“ segir Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, oddviti. Segir hann að nefndin hafi borið saman ýmsa kostnaðarliði eins og þeir leggjast til. „Þar endurspeglast vissulega sú staðreynd að kostnaður per nemanda er meiri í fámennari skólum,“ segir Guðmundur Ingi.
Nemendur í Laugalandsskóla eru 75, þar af þriðjungur úr Ásahreppi. Nemendurnir í grunnskólanum á Hellu eru liðlega 160.
„Þetta snertir því þessi tvö sveitarfélög og engar ákvarðanir verða teknar um framhaldið án umræðu á vettvangi þeirra beggja,“ segir Guðmundur Ingi.
Hann tekur fram að ekki sé búið að leggja það til, hvorki í fræðslunefnd né sveitarstjórn að leggja til að skólastarfið flytjist allt á Hellu.
Fulltrúar minnihlutans í sveitarstjórn hafa af því áhyggjur að tillögur nefndarinnar kunni að leggja línurnar í umræðunni um skólamál. Guðmundur segist ekki geta lagt mat á það, en sveitarstjórn verði að horfa á allar hliðar málsins.
Hann segir umræðuna einkennast af nokkrum tilfinningahita, sérstaklega á upptökusvæði Laugalandasskóla. Hann vonast þó til að umræðan verði á faglegum og hógværum nótum.
Um næstu skref segir Guðmundur Ingi að búið sé að kynna skýrsluna fyrir fræðslunefnd, í framhaldinu verður hún svo kynnt skólastjórum og fulltrúum foreldrafélaga.
Fyrri greinÆgir valinn íþróttamaður ársins
Næsta greinGrunnskólamótinu frestað