Leggst gegn áformum um virkjun í Ölfusá

Stjórn Veiðifélags Árnesinga leggst gegn fyrirhuguðum áformum um virkjun í Ölfusá og segir virkjun stofna lífríki vatnasvæðis Ölfusár og Hvítár í mikla hættu.

Í yfirlýsingu frá stjórn félagsins kemur fram að rennslisvirkjun við Selfoss komi til með að hafa mikil neikvæð áhrif á lífríki vatnasvæðis Ölfusár og Hvítár.

„Fyrirhuguð virkjun er neðst á vatnasvæðinu og mun koma í veg fyrir að laxfiskar komist óhindrað um fiskveginn til sinna heimkynna og stefnir gönguseiðum í mikla hættu,“ segir í ályktuninni.

„Lífríkinu stafar mikil hætta af fyrirhugaðri virkjun og þar með þeim miklu hagsmunum sem felast í veiði.“

Stjórnin, sem skipuð er fulltrúum veiðiréttarhafa af öllu vatnasvæðinu, leggst gegn þessum áformum og krefst að frá þeim verði horfið.