Leggjast gegn frekari tilraunaborunum

Sveitarfélagið Ölfus leggst gegn því að Sveitarfélagið Árborg fari í frekari tilraunaboranir á rannsóknarholum í Árbæ 4, landi sem er í eigu Árborgar en innan Ölfuss.

Árbær 4 er í Árbæjarhverfinu utan ár á Selfossi en hverfið er innan Sveitarfélagsins Ölfuss. Svæðið er núverandi vatnstökusvæði Vatnsveitu Árborgar.

Fyrir fundi bæjarstjórnar Ölfuss í síðustu viku lá fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir borun á rannsóknarholum í Árbæ 4. Þær borholur sem Árborg sótti um framkvæmdaleyfi fyrir koma til viðbótar við þær borholur sem tilgreindar voru í umsókn Árborgar um nýtingarleyfi til Orkustofnunar árið 2010.

Bæjarstjórn Ölfuss samþykkti samhljóða að á meðan málið er í vinnsluferli á milli eigenda Árbæjarlanda og Árborgar um vatnstöku leggist Sveitarfélagið Ölfus gegn frekari tilraunaborunum á svæðinu.

Fyrri greinLeit lokið í dag – engar vísbendingar fundist
Næsta greinSmáskjálftar við Húsmúla