Leggja til að Gaulverjasókn fari undir Selfossprestakall

Á aðalsafnaðarfundi Gaulverjabæjarsóknar í Félagslundi í kvöld verður borin upp sú tillaga að Gaulverjabæjarsókn verði færð undir Selfossprestakall.

„Við erum að óska eftir því að vera færð í Selfossprestakall, þar sem eru fjórar sóknir fyrir. Ein helsta ástæða þess að við viljum þetta er sú að við erum í skólasamfélagi með öðrum sveitasóknum í Selfossprestakalli. Þar eru börnin okkar saman í skóla og vilja fylgjast að t.d. í fermingarundirbúningi. Svo sækjum við alla þjónustu á Selfoss, við erum menningarlega meira tengd hér austur eftir en í þorpin með ströndinni. Þá verða allar sóknir í Flóahreppi í sama prestakalli, okkur finnst það eðlilegt og liggja beint við,“ sagði Margrét Jónsdóttir, formaður sóknarnefndar, í samtali við Sunnlenska.

„Gaulverjabæjarsókn verður áfram sjálfstæð sókn eins og hingað til, það verður engin breyting á því. Í henni eru 135 sóknarbörn,“ bætti Margrét við.

Fyrri greinListasafnið tilnefnt til Eyrarrósarinnar
Næsta greinHöskuldur ráðinn varðstjóri sjúkraflutninga